Hefur umtalsverð áhrif á ferðaþjónustu

,,Þessi vegur mun hafa gríðarleg áhrif fyrir íbúa hér á svæðinu og alla þá sem hingað vilja sækja,“ sagði Valtýr Valtýsson, sveitastjóri í Bláskógarbyggð.

Hann segir heimamenn enn vera að ná áttum eftir opnun nýja vegarins yfir Lyngdalsheiði. Gríðarleg sátt sé með veginn enda hafa menn beðið í ofvæni eftir að fá hann. ,,Þetta er búið að vera margra ára baráttumál hjá sveitafélaginu og íbúa þess. Og nú er skammt að bíða þess að nýja brúin yfir Hvíta verði opnuð þannig að hér ríkir mikil ánægja með þessar samgöngubætur.“

Að sögn Valtýs er ljóst að vegurinn yfir Lyngdalsheiði mun hafa mikil og varanleg áhrif á líf íbúanna og starfsemi í Bláskóga­byggð, ekki síst ferðaþjónustu. Hann sagði að nú væri í gangi mikil uppbygging vegna gufubaðsins á Laugarvatni og þess væri að vænta að þetta hefði umtalsverð áhrif á ferðaþjónustu þar. ,,Það vita allir um mikilvægi Þingvalla fyrir ferða­þjónustuna og að hafa núna þessa tengingu við Geysi og Gullfoss kemur til með að skipta verulegu máli. Nú erum við komnir með heilsársveg yfir heiðina sem auðveldar allar samgöngur verulega. Það vissu það allir að gamli vegurinn dugði engan veginn lengur vegna öryggissjónarmiða og svo var hann lokaður yfir vetrartímann. Við hér í uppsveitum Árnessýslu væntum mikils af þessum vegabótum.“

Fyrri greinGrunaðir innbrotsþjófar stöðvaðir í strætó
Næsta greinKristrún í stuði gegn Njarðvík