„Hefur gríðarlega þýðingu fyrir samfélagið“

Afkomendur Egils afhjúpuðu styttuna, sem er eftir Höllu Gunnarsdóttur, myndhöggvara. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen
sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Það var hátíðleg stund og mikill mannfjöldi samankominn síðdegis í dag þegar stytta af Agli Thorarensen, kaupfélagsstjóra, var afhjúpuð við húsið Sigtún í miðbæ Selfoss. Styttubandið hafði veg og vanda að uppsetningu styttunnar, sem er eftir Höllu Gunnarsdóttur, myndhöggvara.

„Þetta hefur gríðarlega þýðingu fyrir samfélagið, að minnast þessa manns sem var mestur brautryðjandi á örlagatímum, virkjaði samvinnuaflið, var hér öflugur kaupmaður og leiddi síðan þessi miklu systurfyrirtæki, Kaupfélag Árnesinga og Mjólkurbú Flóamanna,“ sagði Guðni Ágústsson, stjórnarformaður Styttubandsins, í samtali við sunnlenska.is og bætir við að hugmyndin hafi verið lengi að gerjast.

„Við erum búnir að vera með þessa hugmynd í maganum í tuttugu ár. Svo varð Styttubandið til og þeim í Sigtúni þróunarfélagi fannst tilvalið að setja Egil hér á stall, sem gestgjafa, hann tekur á móti öllum sem koma af brúnni og mun gera það í þúsund ár. Þetta var stórkostleg samkoma hér í dag og glæsileg,“ sagði Guðni ennfremur.

Lúðrasveit Selfoss spilaði fyrir gesti í miðbænum áður en Karlakór Selfoss söng inn samkomuna. Guðni, Fjóla Kristinsdóttir bæjarstjóri og Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, fluttu ávörp áður en stórtenórinn Kristján Jóhannsson söng Hraustir menn ásamt Karlakór Selfoss.

Það voru síðan barnabarnabarnabörn Egils, öll búsett á Selfossi, sem afhjúpuðu styttuna ásamt Grími Arnarsyni, langafabarni Egils.

Grímur Arnarson og barnabarnabarnabörn Egils, þau Aníta Ósk Ægisdóttir, Grímur Örn Ægisson, Elísabet Sara Ægisdóttir, Írena Dröfn Arnardóttir og Aldís Orka Arnardóttir afhjúpuðu styttuna. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen
Guðni Ágústsson rakti sögu Egils í ávarpi. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen
Sigurjón Erlingsson og Leó Árnason eru meðal þeirra sem skipa stjórn Styttubandsins. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen
Fjöldi gesta var viðstaddur hátíðina á Brúartorgi í miðbæ Selfoss. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen
Fyrri greinAlvarlegt umferðarslys á Suðurlandsvegi
Næsta greinÓtrúlegur viðsnúningur í fyrsta tapi Selfoss