Hefur áhyggjur af þrengslum við Sýslumannstúnið

Andrés Rúnar Ingason, varabæjarfulltrúi, V-listans í Árborg hefur áhyggjur af því að kirkja, safnaðarheimili og prestbústaður ásamt bílastæðum rúmist illa á Sýslumannstúninu á Selfossi og geti þrengt að umferð viðbragðsaðila um Hörðuvellina.

Kaþólska kirkjan hefur fengið úthlutað lóðinni á Sýslumannstúninu á horni Hörðuvalla og Austurvegs undir kirkju, safnaðarheimili og prestbústað. Skipulags- og byggingarnefnd Árborgar hefur óskað eftir því að kaþólska kirkjan deiliskipuleggji lóðina í samráði við skipulags- og byggingarfulltrúa.

Málið var rætt á síðasta fundi bæjarstjórnar Árborgar og þar lét Andrés Rúnar bóka áhyggjur sínar yfir því að á Sýslumannstúnið verði sett starfsemi sem hafi ófullnægjandi bílastæði fyrir þau umsvif sem ætla má að af starfseminni hljótist.
„Viðkomandi gatnamót Austurvegar og Hörðuvalla eru mikilvæg fyrir alla neyðarviðbragðsaðila í bænum, lögreglu, sjúkrahús, sjúkraflutninga, slökkvilið og björgunarsveit. Ef á lóð sýslumannstúnsins verða sett kirkja, safnaðarheimili og prestbústaður, verður það lítið pláss eftir fyrir bílastæði að hætt er við að það anni ekki þörf og þá myndist óheppilegt ástand vegna bíla sem lagt verður í nágrenninu,“ segir Andrés Rúnar í bókun sinni.
Hann telur að nóg framboð sé á rúmgóðum lóðum á öðrum stöðum í sveitarfélaginu, sem hentað gætu ágætlega fyrir umrædda starfsemi kaþólska safnaðarins á Selfossi og fer fram á að teknar verði upp viðræður við söfnuðinn um nýja og betri lóð.
Fyrri greinÖrlítill munur á lægstu tilboðunum
Næsta greinSegja yfirlýsingar Íbúðalánasjóðs ekki hafa staðist