„Hefjum Alviðru til vegs og virðingar“

Ari Björn Thorarensen, oddviti Héraðsnefndar Árnesinga, vill að væntanleg Þjóðgarðastofnun hafi aðsetur í Alviðru í Ölfusi.

„Við Árnesingar ásamt Landvernd eigum frábæran stað í Ölfusi sem er Alviðra. Þar væri Þjóðgarðastofnun best komin í námunda við stærstu og merkustu náttúruperlur landsins,“ segir Ari Björn í færslu á Facebooksíðu sinni.

Alviðra hefur verið sameiginleg eign Landverndar og Héraðsnefndar Árnesinga frá árinu 1973 þegar Magnús Jóhannesson, bóndi í Alviðru, afhenti þeim jörðina til eignar.

„Jörðinni fylgdu kvaðir um að ekki mætti skipta jörðinni upp undir sumarhús og að hún yrði nýtt til landgræðslu og náttúruverndar. Stöndum nú saman og og hefjum Alviðru til vegs og virðingar, og setjum Þjóðgarðastofnun þar,“ segir Ari Björn ennfremur.

Form um Þjóðgarðastofnun voru kynnt í haust en stofnuninni er ætlað að taka við verkefnum Vatnajökulsþjóðgarðs, Þjóðgarðsins á Þingvöllum, Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls og tiltekinna verkefna á sviði náttúruverndar á vegum Umhverfisstofnunar. Markmiðið er að efla og styrkja sameiginlega starfsemi og stoðþjónustu þjóðgarða og friðlýstra svæða.

Björt Ólafsdóttir, þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, skipaði í haust starfshóp til að vinna að gerð lagafrumvarps um Þjóðgarðastofnun. Fimmtán manns sitja í starfshópnum og meðal þeirra eru Vilhjálmur Árnason, formaður Þingvallanefndar, Einar Á.E. Sæmundsen, fræðslufulltrúi í Þjóðgarðinum á Þingvöllum, Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar, Ármann Höskuldsson, formaður stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs, Þórður H. Ólafsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs og Björn Ingi Jónsson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjörður.

Fyrri greinFlugeldabingó í Iðu
Næsta greinAlvarlegt rútuslys vestan við Klaustur