Hefja viðræður um sameiningu húsnæðis

Rangárþing ytra og eigendur verkalýðshússins á Hellu hafa samþykkt að ganga til viðræðna um sameiginlegt eignarhald á húseignum við Suðurlandsveg 1 og 3.

Tilgangurinn er að ná fram arðvænlegri rekstrareiningu um húsið en útlit er fyrir að fyrirhugaður rekstur tengibyggingar sem er í byggingu muni ekki bera þann kostnað sem hún hefur í för með sér.

Að sögn Gunnsteins Ómarssonar sveitarstjóra Rangárþings ytra fæst ekki fjármagn sem þarf til að klára tengibygginguna og vonir bundnar við að með því að gera húsið að einni heild megi skjóta fótum undir rekstur í því og leysa fjármögnunarvanda byggingarinnar. Meiri líkur séu á lánafyrirgreiðslu ef samningar takist um sameiningu hússins.

„Menn ganga óbundnir til þessara viðræðna, en orð eru til alls fyrst,“ segir Gunnsteinn. Fyrirhugað var að hefja rekstur verslunareininga og skrifstofa í tengibyggingunni í fyrrasumar en framkvæmdir við hana stöðvuðust í haust vegna þess að félagið sem á bygginguna hefur ekki getað staðið við greiðslur til verktaka.