Hefja undirbúning að hönnun Sigtúnsgarðs

Bæjarráð Árborgar hefur samþykkt að hafin verði undirbúningsvinna að hönnun Sigtúnsgarðs á Selfossi sem samkomusvæðis. Fulltrúi S-listans greiddi atkvæði gegn tillögunni.

Í Sigtúnsgarði verður lögð áhersla á afþreyingu fyrir fjölskyldur og aðstöðu til skemmtanahalds, svo sem vegna bæjarhátíða, 17. júní og annarra hefðbundinna hátíða.

Framkvæmdastjóra sveitarfélagsins er falið að leita tilboða fagaðila í hönnunarvinnu og skipuleggja opinn fund þar sem íbúar geta komið með hugmyndir að útliti og notkun garðsins.

Arna Ír Gunnarsdóttir, fulltrúi S-lista, greiddi atkvæði gegn tillögunni og sagðist setja spurningarmerki við að undirbúningur við hönnun garðsins hefjist á þessum tímapunkti þar sem tillaga að nýju deiliskipulagi fyrir miðbæinn er enn í auglýsingaferli.

„Ef sú tillaga verður að veruleika mun svæðið fyrir miðbæjargarð minnka til muna frá því sem er í gildandi skipulagi frá árinu 2013,“ segir Arna Ír og bætir við að hún telji skynsamlegt að bíða með hönnun garðsins þar til liggur fyrir hvort nýtt deiliskipulag fyrir miðbæjarreitinn verður samþykkt.

Fyrri greinFlóahreppur keppir í Útsvarinu
Næsta greinEnn von hjá Árborg – Markaleikur á Flúðavelli