Hefja stefnumótun í atvinnumálum

Bæjarstjórn Árborgar samþykkti á fundi sínum í gær tillögu S-listans um að hefja vinnu við stefnumótun í atvinnumálum sveitarfélagsins.

Atvinnuþróunarfélaginu verður falið að kortleggja styrkleika, veikleika og möguleika Árborgar til þess að efla atvinnulíf í sveitarfélaginu. Í framhaldi af þeirri kortlagningu verði unnin stefna sveitarfélagsins í atvinnumálum.

Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, fylgdi tillögunni úr hlaði og í greinargerð sem fylgdi henni segja fulltrúar S-listans að það sé aldrei jafn mikilvægt og einmitt nú að bæjaryfirvöld geri sér grein fyrir þeim styrkleikum og veikleikum sem sveitarfélagið hefur þegar kemur að atvinnumálum.
Eftir umræður um málið á bæjarstjórnarfundinum var tillagan samþykkt samþykkt samhljóða.