Hefja samstarf um endurnýtingu á rafbílarafhlöðum

Aðalheiður Jacobsen, framkvæmdastjóri Netparta og Linda Fanney Valgeirsdóttir, framkvæmdastýra Alor. Ljósmynd/Aðsend

Nýsköpunarfyrirtækið Alor, sem sérhæfir sig í rafhlöðurannsóknum og þróun þeirra og Netpartar, umhverfisvæn endurvinnsla bifreiða í Byggðarhorni í Sandvíkurhreppi, hafa gert með sér samkomulag um endurnýtingu á notuðum rafbílarafhlöðum.

Samningurinn er gerður í tengslum við tveggja ára rannsóknarverkefni Alor sem snýr að því að nýta rafhlöðurnar til að útfæra svokallaðar blendingsrafstöðvar sem eru knúnar af jarðefnaeldsneyti og tengdar endurnýttum rafbílarafhlöðum til að minnka eldsneytisnotkunina.

Einstakt verkefni á heimsvísu
Við blendingsrafstöðina má tengja sólarsellur og litlar vindtúrbínur og þar með framleiða rafmagn með sjálfbærari og hagkvæmari hætti. Kerfið mun nýtast öllum sem reiða sig á jarðefnaknúnar rafstöðvar, s.s. sem varaafl. Eftir því sem komist verður næst er um að ræða einstakt verkefni á heimsvísu þar sem ekki fæst séð að rafbílarafhlöður sem hafa fengið framhaldslíf hafi verið nýttar í þessum tilgangi áður.

„Flestar varaflsstöðvar hér á landi eru eingöngu knúnar af olíu en með því að bæta rafhlöðum við þær er hægt að minnka olíunotkun sem hjálpar til við að ná markmiðum um samdrátt í losun gróðurhúsaloftegunda,“ segir Linda Fanney Valgeirsdóttir, framkvæmdastýra Alor. „Sérfræðingum ber saman um að rafhlöður séu lykillinn að orkuskiptunum og fyrirséð að þörf á þeim muni aukast gríðarlega, en við getum lengt líftíma rafbílarafhlaðna um að minnsta kosti tíu ár með endurnýtingu þeirra. Það er ekki einfalt að nálgast notaðar rafbílarafhlöður og því fögnum við samstarfinu við Netparta sem flýtir fyrir verkefninu.“

Stolt af því að geta lagt okkar af mörkum
Netpartar hafa um árabil tekið á móti og geymt notaðar rafbílarafhlöður. Netpartar tóku þátt í norræna rannsóknaverkefninu PROACTIVE sem sneri að því að efla leiðbeiningar um meðhöndlun og geymslu rafbílarafhlaðna eftir að líftíma þeirra lýkur.

„Mikið af orku má enn geyma í rafbílarafhlöðu þó hún geti ekki lengur þjónustað rafbílinn, auk þess þá inniheldur hún fágæta og verðmæta málma,“ segir Aðalheiður Jacobsen, framkvæmdastjóri Netparta. „Áætlað er að á árinu 2030 muni falla til 12 milljón tonn af notuðum rafbílarafhlöðum og því er afskaplega aðkallandi að finna hráefninu farveg hér innanlands og sporna gegn sóun og útflutningi úr landi með tilheyrandi kolefnisspori. Við erum stolt af því að geta lagt okkar af mörkum í þetta mikilvæga verkefni sem fellur vel að áherslum hringrásarhagkerfis og styður við orkuskiptin.“

Rannsóknarverkefninu er stýrt af Rúnari Unnþórssyni, tæknistjóra Alor og prófessor við Háskóla Íslands. Verkefnið er unnið í samstarfi við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands. Alor hefur hlotið tæplega 100 milljónir króna í styrki til verkefnisins frá Tækniþróunarsjóði, Nýsköpunarsjóði námsmanna, Orkusjóði, Loftlagssjóði og Vísindasjóði Orkuveitu Reykjavíkur. Styrkirnir eru dýrmætur stuðningur og hjálpar Alor með að fjármagna verkefnið að fullu.

Fyrri greinStyrkir íþróttafólk um skó fyrir 13 milljónir króna
Næsta greinGrindvíkingar fá forgang að lóðum í Ölfusi