Hefja gjaldtöku á bílastæðinu við Reykjadal

Upptök skjálftans voru skammt frá gönguleiðinni inn í Reykjadal. Ljósmynd/Hveragerðisbær

Hveragerðisbær hyggst hefja gjaldtöku á bílastæðinu á Árhólmum, hvar ferðafólk leggur bílum sínum áður en það gengur upp í Reykjadal.

Bæjarstjórn Hveragerðis samþykkti á síðasta fundi sínum að hefja gjaldtöku um leið og salernisaðstaða og þjónustuhús verður tilbúið. Tillögur að gjaldi og fyrirkomulagi gjaldtökunnar verða lagðar fyrir bæjarráð í janúar.

Bílastæðagjaldinu er ætlað að standa straum af kostnaði við uppbyggingu á staðnum og þjónustu sem veitt er gestum. Bílaplanið eitt og sér kostaði ríflega 40 milljónir og bæjarfélagið mun greiða rekstraraðilum á svæðinu fyrir þá þjónustu sem veitt er þeim fjölmörgu sem um það fara. Einnig standa vonir til að hægt sé að setja fjármuni í nauðsynlega uppbyggingu göngustíga og úrbætur inn í Reykjadal. Ágóði af bílastæðinu, ef einhver verður, mun eingöngu nýtast til uppbyggingar á umhverfi og aðkomu.

Á síðasta fundi bæjarstjórnar voru kynnt og lögð fram tilboð í bílastæðalausn í Reykjadal frá Parking og Öryggismiðstöðinni og var samþykkt að ganga að tilboði Öryggismiðstöðvarinnar og hefja strax undirbúning að gjaldtöku.

Fyrri greinAlls 23 sunnlenskir leikmenn í æfingahópum yngri landsliða
Næsta greinLögreglan hrósar hótel- og veitingafólki