Hefðu viljað segja álit sitt

Bæjarstjórn Hveragerðis harmar að ekki skuli hafa verið leitað álits Hveragerðisbæjar við útgáfu starfsleyfis til handa ORF Líftækni að Reykjum í Ölfusi. ORF þróar og rannsakar erfðabreytt bygg í tilraunagróðurhúsi að Reykjum.

Umhverfisstofnun hefur endunýjað starfsleyfi ORF Líftækni til ræktunar byggs í tilraunagróðurhúsi Landbúnaðarháskóla Íslands að Reykjum í Ölfusi til næstu tíu ára.

ORF hefur notað aðstöðuna mörg undanfarin ár til þess að stunda rannsóknar og þróunarstarf, en undanfarin ár hefur aðstaðan þó ekki verið fullnýtt. Með endurnýjuðu samkomulagi ORF Líftækni við LBHÍ eykst nýting gróðurhússins verulega.

Bæjarstjórn Hveragerðis telur að málið hefði átt að fara fyrir bæjarstjórn eða til umræðu á opnum fundi með íbúum áður en starfsleyfi var gefið út. Bæjarstjórnin tekur undir athugasemdir sem skipulags-, byggingar- og umhverfisnefnd Sveitarfélagsins Ölfuss gerði við útgáfu leyfisins og tekur ennfremur undir áréttingu Heilbrigðiseftirlits Suðurlands um mikilvægi þess að varlega sé farið við starfsemi af þessu tagi og að tryggt skuli að erfðabreyttar lífverur berist ekki í umhverfið.

Bæjarstjórn leggur áherslu á mikilvægi að virkt eftirlit verði með rekstrinum af hálfu Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits og þannig verði tryggt að umhverfisskaði vegna ræktunarinnar verði enginn.

Fyrri greinFjóla Signý og Bjarni Már Íslandsmeistarar
Næsta greinSundlaugin á Flúðum lokuð