Haukur Kristjáns hættir

Haukur Kristjánsson, oddviti í Rangárþingi eystra hyggst ekki bjóða sig fram í sveitarstjórn í vor en Haukur var á lista framsóknarmanna og annarra framfarasinna, sem hlaut hreinan meirihluta þar síðast.

Haukur sagði í samtali við Sunnlenska að honum þætti nóg að hafa verið í sveitarstjórnarmálunum í tólf ár.

„Ég hef verið hér oddviti undanfarin tvö ár og í sveitarstjórn frá því sveitarfélögin hér voru sameinuð árið 2002,“ sagði Haukur.

Hann segir að starfið hafi verið skemmtilegt en það þurfi hver að kunna sinn vitjunartíma. „Ég hef eignast marga vini í gegnum þetta og að ég held enga óvini, og það er ágætt að hætta á meðan svo er.“