Haukar kæra leikinn gegn Selfossi og vilja að hann sé endurtekinn

Handknattleiksdeild Hauka hefur kært leik Selfoss og Hauka í Olís-deild kvenna á miðvikudagskvöld til dómstóls HSÍ. Selfoss sigraði 28-25.

Róbert Geir Gíslason, mótastjóri HSÍ, staðfesti í samtali við sunnlenska.is að kæra hefði borist til dómstóls HSÍ frá Haukum vegna framkvæmdar á leiknum.

Þegar tæpar tvær mínútur voru eftir braust Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, leikmaður Selfoss, í gegnum Haukavörnina þar sem María Karlsdóttir togaði svo hraustlega í Hönnu að treyja hennar rifnaði illa. Hanna, sem spilar í treyju númer fjögur, skipti um treyju og fór í treyju númer þrjú. Í henni spilaði hún síðustu mínútu leiksins.

„Haukar kæra ákvörðun dómara leiksins að leyfa Hönnu að skipta um treyju. Í leikreglum og reglugerð um handknattleiksmót segir að þú megir ekki breyta leikskýrslu. Annars liggur málið hjá dómstól HSÍ þannig að ég kýs að fara ekki dýpra í þetta,“ sagði Róbert Geir í samtali við sunnlenska.is en bætti við að krafa Hauka væri sú að leikurinn yrði spilaður aftur.

Kæran barst dómstól HSÍ í gær sem mat hana dómtæka og Selfyssingar hafa þrjá sólarhringa til þess að bregðast við henni. Róbert á von á að niðurstaða í málinu liggi fyrir öðru hvoru megin við næstu helgi.

Magnús Matthíasson, formaður handknattleiksdeildar Selfoss, segir að kæran hafi komið Selfyssingum í opna skjöldu.

„Auðvitað er um smámál að ræða sem hefur engin áhrif hefur á úrslit leiksins en öllum er frjálst að leita réttar síns og verða viðbrögð okkar því að afla nauðsynlegra gagna og koma til dómstóls HSÍ,“ sagði Magnús í samtali við sunnlenska.is.

„Haukar eru stórt handboltafélag sem við berum mikla virðingu fyrir og við munum gera allt til að komast til botns í þessu máli. Haukar og Selfoss hafa átt gott samstarf á liðnum árum, við höfum hjálpað þeim með leikmenn þegar þannig hefur staðið á og viljum því síður að skuggi falli á þessi góðu félagatengsl og munum því sýna öllum hlutaðeigandi mikinn samstarfsvilja,“ sagði Magnús ennfremur.

Fyrri grein„Maður dæmir sig sjálfur harðast“
Næsta greinMeiri líkur á eldgosi en venjulega