Hátt í hundrað eignir á sölu

Lítil hreyfing hefur verið á fasteignamarkaði í Þorlákshöfn undanfarið. Guðbjörg Heimisdóttir, fasteignasali hjá Fasteignasölu Suðurlands, segist vera með á milli 60 og 70 eignir á skrá hjá sér sem væri í meira lagi þó ávallt væri talsverður eignafjöldi á söluskrá í Þorlákshöfn.

Guðbjörg segir að þar skipti miklu máli að bankarnir gætu ekki afgreitt umsóknir sem skyldi og þá hefðu mál einnig verið í ákveðinni biðstöðu hjá Íbúðalánasjóði þó hún vonist til að þar greiðist úr fljótlega. Guðbjörg segir ástandið svipað á Selfossi og í Hveragerði.

„Það er ekkert leyndarmál að markaðurinn er frosinn að hluta til. Svo skiptir máli að margir vilja minnka við sig en um leið skortir kaupendahópinn sem vill stækka við sig. Atvinnuástandið hefur verið ágætt hér í Þorlákshöfn og ég held að um leið og lánastofnanir eru búnar að leysa úr sínum málum þá ætti þetta að færast í eðlilegra horf. Því miður hefur mörgum reynst erfitt að glíma við bankana,” segir Guðbjörg.

Fyrri greinHarður árekstur á Austurveginum
Næsta greinSunnlenska.is 2 ára