Hátt í hundrað jólapakkar frá Hellu

Á undanförnum árum hafa grunnskólanemendur á öllum aldri verið duglegir í að taka þátt í verkefninu ,,Jól í skókassa". Krakkarnir í Grunnskólanum Hellu láta sitt ekki eftir liggja.

Það er KFUM og K sem stendur fyrir verkefninu sem felst í því að útbúa jólapakka í skókassa og senda þá til fátækra barna í Úkraínu.

Í tengslum við þetta verkefni hefur verið starfræktur saumaklúbbur nemenda í 5. – 7. bekk á Hellu. Verkefni sumaklúbbsins hefur t.d. verið að sauma og prjóna þvottapoka, pennaveski, dúkku- og bangsaföt að ógleymdum barnafötum.

Textílkennari skólans, Þórhalla Sigmundsdóttir, hefur stjórnað þessu verkefni frá upphafi og gert það af röggsemi.

Þetta árið fóru 93 skókassar frá Grunnskólanum á Hellu og munar um minna.