Hátt í 8.000 fiskar veiddust

Þó ekki séu komnar endanlegar tölur frá Veiðimálastofnun vegna veiði í Þjórsá á síðasta sumri er ljóst að öll veiðimet voru slegin í ánni.

Að sögn Einars H. Haraldssonar, bónda á Urriðafossi í Flóahreppi, munu hafa veiðst á milli 7.500 til 8.000 fiskar en Veiðimálastofnun er ekki búin að ljúka endanlegri samantekt. Ef þetta er niðurstaðan er ljóst að veiðimetið frá 1978 var slegið en þá komu 5.500 fiskar á land.

Í Þjórsá veiðist lax og silungur. Einar sagðist ekki hafa neina einhlíta skýringu á þessari miklu fiskgegnd og líklega væru það nokkrir þættir sem orsökuðu það. Hann nefndi betri skilyrði í sjónum, laxastiga við Búðafoss rétt hjá Árnesi og aukinn seiðafjöldi.

Landsvirkjun á enn eftir að semja við veiðiréttarhafa í Þjórsá um bætur vegna laxveiðiréttinda. Einar segir að ljóst sé að netalagnir breytist verulega og hverfi jafnvel að stórum hluta enda fyrirséð að vatnsmagn minnkar um allt að 80%. Er talið að sumarrennsli fari úr því að vera 400 til 500 rúmmetrar á sekúndu niður í 100 rúmmetra.

Viðræður við Einar hófust í haust en hafa legið niðri um tæplega þriggja mánaða skeið. Af hverju sagðist hann ekki vita en sagði að viðræðurnar væru nánast á byrjunarstigi. Aðspurður um veiði komandi sumars sagðist hann vera ,,ákaflega bjartsýnn.“