Hátíðum á Suðurlandi aflýst

Trúðurinn Wally verður á Hótel Selfossi um helgina - eingöngu fyrir hótelgesti.

Hertar aðgerðir vegna COVID-19 valda því að Fjölskylduhátíð Hótel Selfoss um verslunarmannahelgina hefur verið aflýst. Þó verður barnaskemmtun haldin á sunnudaginn, en hún verður eingöngu fyrir hótelgesti.

Öllu viðburðahaldi á Flúðum um versló hefur verið aflýst, tónleikum Hreims á laugardagskvöldið og Sveitalífi Friðriks Ómars og Jógvan á Flúðum á sunnudagskvöld. Árlegri síðsumarsmessu í Tungufellskirkju sem vera átti sunnudaginn 9. ágúst kl. 14 er einnig aflýst.

Þá hefur bæjarhátíðinni Sumar á Selfossi verið aflýst, en hún átti að fara fram 6.-9. ágúst og Hveragerðisbær hefur aflýst bæjarhátíðinni Blómstrandi dögum sem áttu að fara fram 13.-16. ágúst.

Íþróttaviðburðum frestað
Öllum íþróttaviðburðum fullorðinna er aflýst eða frestað til 10. ágúst. Knattspyrnuleikir sem áttu að fara fram í næstu viku munu því færast til og Golfklúbbur Hveragerðis hefur aflýst VITA open golfmótinu sem halda átti á morgun, föstudag.

Frá og með morgundeginum miðast takmörkun á mannfjölda sem kemur saman við 100 einstaklinga og hvar sem fólk kemur saman verður regla að hafa að minnsta kosti 2 metra á milli einstaklinga.

Tónaflóð án áhorfenda í sal
RÚV og Bláskógabyggð hafa tekið ákvörðun um að ekki verði áhorfendur í sal í Aratungu við útsendingu á tónleikunum Tónaflóði á morgun, föstudagskvöld. Tónleikarnir verða eftir sem áður sýndir í beinni útsendingu á RÚV og Rás 2 og hefjast þeir um kl. 19:45.

Fyrri greinAuðvelt að bæta á sig kílóum á HSU
Næsta greinGul viðvörun á Suðurlandi – Appelsínugul vestan Öræfa