Hátíð í bæ í kvöld

Hinir árlegu stórtónleikar, Hátíð í bæ, verða haldnir í íþróttahúsinu Iðu á Selfossi í kvöld. Fjöldi listamanna kemur fram á tónleikunum.

Þetta er í tíunda og síðasta skipti sem Kjartan Björnsson, rakari á Selfossi, blæs til þessara glæsilegu tónleika og segir hann að undirbúningurinn hafi gengið vel og allir séu spenntir fyrir kvöldinu.

Ennþá eru til miðar á midi.is og á Rakarastofu Björns og Kjartans, auk þess sem miðasala við innganginn hefst kl. 18 í kvöld. Húsið opnar svo klukkan 19:00 og tónleikarnir hefjast kl. 19:30.

Alls koma yfir eitthundrað listamenn fram á sviðinu í Iðu í kvöld, en meðal þeirra eru Barnakór Hvolsskóla, Jógvan Hansen, Guðrún Gunnarsdóttir, Diddú, Lúðrasveit Þorlákshafnar, Magnús Kjartan Eyjólfsson og Karlakór Selfoss.