Háskólalestin brunar á Hornafjörð

Háskólalestin. Ljósmynd © Kristinn Ingvarsson

Vorið er komið og það þýðir Háskólalest Háskóla Íslands brunar af stað og stöðvast á Höfn í Hornafirði föstudaginn 3. maí.

Megináhersla Háskólalestarinnar er að kynna vísindi á lifandi og fjölbreyttan hátt, styðja við starf grunnskólanna og efla tengsl HÍ við landsbyggðina. Haldin verða fjölbreytt og spennandi námskeið úr Háskóla unga fólksins fyrir nemendur í Heppuskóla á Hornafirði og dagskránni lýkur síðdegis með opnu vísindahúsi fyrir allt samfélagið á Höfn.

Opna vísindahúsið verður í Heppuskóla kl. 13:50 – 15:00. Þar býðst öllum að kíkja inn í kennslustofur og spjalla við fræðafólkið og kynnast undrum vísindanna með gagnvirkum og lifandi hætti. Aðgangur er ókeypis og öll velkomin.

Fyrr um daginn sitja nemendur í 6.-10. bekk í Heppuskóla námskeið í Háskólalestinni þar sem meðal annars er boðið upp á tækjaforritun, fræðslu um bókmenntir- og loftlagsbreytingar, stjörnufræði, blaða- og fréttamennsku, sjúkraþjálfun, efnafræði og það sem öll eru að tala um þessa dagana, gervigreind. Meðal kennara í lestinni eru Sprengju-Kata og Stjörnu-Sævar sem munu ekki bregðast aðdáendum sínum frekar en fyrri daginn.

Fyrri greinÁrborg deildarbikarmeistari í C-deild
Næsta greinÞjótandi bauð lægst í Hvammsveg