Háskólalestin á Hvolsvelli í dag

Mikil dagskrá verður á Hvolsvelli í dag þegar Háskólalestin rennir í hlað kl. 13.

Í Hvolsskóla verða sýnitilraunir af ýmsu tagi, Sprengju-Kári mætir á svæðið, teikniróla sýnd og stjörnutjald ásamt japanskri menningu. Vísindavefur HÍ verður á staðnum og kynnt verða undur jarðar og farið verður í spennandi úti- og innileiki fyrir alla fjölskylduna. Tónlist mun óma með eldorgelinu, gospelkór Suðurlands tekur nokkur lög og Ástráður veitir góð ráð um ástina.

Landgræðslustöð ríkisins að Gunnarsholti, Háskólafélag Suðurlands og Rannsóknasetur HÍ á Suðurlandi taka þátt í dagskránni með kynningum og erindum.

Meðal erinda verða:
Gosið í Eyjafjallajökli, stórt eða lítið – Magnús Tumi
Skógar og Aska, Hekluskógar og Þórsmörk – Hreinn Óskarsson
Katla jarðvangur (geopark), efling byggðar og samfélags – Ragnhildur Sveinbjarnardóttir
Um komur farfugla til Íslands – Tómas Grétar Gunnarsson
Listin að lífláta lúpínu – Magnús Hrafn Jóhannsson

Kaffisala verður á meðan á dagskrá stendur til styrktar fræðslu- og kynningarferð kennara Hvolsskóla til Skotlands.

Í dag verður einnig opnuð sýning um Kaupfélag Rangæinga, Kaupfélagið 80 ára, í sveitamarkaðnum á Hvolsvelli. Grunnskólabörn hafa unnið að þessari sýningu í vetur.

Fyrri greinVerkalýðurinn fagnar
Næsta greinHamar og KFR áfram – Ægir úr leik