Háskóladagurinn í FSu á mánudaginn

Háskóladagurinn verður í Fjölbrautaskóla Suðurlands mánudaginn 14. mars. Háskólar landsins eru nú á ferð saman um landið undir merkjum Háskóladagsins.

Háskólarnir kynna námsleiðir sínar, sem eru yfir 500 talsins, og námsráðgjafar verða á staðnum.

Háskóladagurinn verður í FSu mánudaginn 14. mars frá kl. 10 til 11:30. Þar munu háskólar á Íslandi kynna hið fjölbreytta nám sem er í boði.

Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Bifröst, Háskólinn á Hólum, Háskólinn í Reykjavík, Landbúnaðarháskóli Íslands og Listaháskóli Íslands kynna námsframboð sitt, á grunn- og framhaldsstigi.

Háskólar á Íslandi standa í sameiningu fyrir Háskóladeginum sem fór fram í Reykjavík laugardaginn 5. mars. Eftir þann dag ferðast háskólarnir saman um landið. Kynningin í FSu veitir framtíðarnemendum tækifæri til þess að hitta námsráðgjafa, starfsmenn og nemendur háskólanna svo þeir geti tekið upplýsta ákvörðun um námsval.

Allir eru velkomnir á kynninguna og er fólk á öllum aldri hvatt til þess að mæta.

Háskóladagurinn á Facebook

Fyrri greinMikið sandfok við Óseyrarbrú
Næsta greinRagnar Ágúst valinn íþróttamaður HSK