Harpa Elín hlaut Menningarverðlaun Suðurlands 2025

(F.v.) Ingunn Jónsdóttir framkvæmdastjóri SASS, Anton Kári Halldórsson, stjórnarformaður SASS og Harpa Elín verðlaunahafi. Ljósmynd/Aðsend

Harpa Elín Haraldsdóttir, forstöðukona Kötluseturs í Vík, tók síðastliðinn föstudag á móti Menningarverðlaunum Suðurlands 2025. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn á ársþingi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga á Kirkjubæjarklaustri.

Harpa hlýtur viðurkenninguna fyrir ómetanlegt og óeigingjarnt framlag sitt til menningar og samfélags í Mýrdalshreppi.

Harpa Elín er handhafi menningarverðlauna SASS 2025. Ljósmynd/Aðsend

Óeigingjarnt starf og einstakur drifkraftur
Í rökstuðningi dómnefndar, sem vitnað var til við afhendinguna, er Hörpu lýst sem „ótrúlegum drifkrafti“ í samfélaginu. „Með sinni einstöku orku, jákvæðni og góðvild hefur hún haldið uppi menningarstarfi og samfélagslegri virkni af ótrúlegum krafti“.

Í umsögn dómnefndar kemur jafnframt fram að starf hennar sem forstöðukona Kötluseturs nái langt út fyrir hefðbundin starfsmörk. Hún hafi staðið að skipulagningu og framkvæmd bæjarhátíða á borð við Regnbogann og Vor í Vík, oft ein eða með takmarkaðri aðstoð auk þess að standa fyrir fjölmörgum öðrum viðburðum á borð við myndlistarsýningar, tónleika og leikrit.

Sérstaklega er tekið fram hversu mikilvægu hlutverki Harpa gegnir í samfélagi þar sem um 62% íbúa eru af erlendum uppruna. Hún hefur tekið á móti nýjum íbúum af hlýju, staðið fyrir bókaklúbbum og kaffihúsum til að æfa íslensku og veitt ómetanlegan stuðning við íbúa í samskiptum við stjórnsýslu og félagsþjónustu. „Hún er virkur samfélagsþegn – ekki aðeins í menningarmálum heldur einnig í foreldrastarfi, forvarnarstarfi, starfi með eldri borgurum og í farsæld barna,“ segir enn fremur í rökstuðningnum.

Breiddin í menningarlífinu á Suðurlandi
Menningarverðlaun Suðurlands eru samfélags- og hvatningarverðlaun á sviði menningar og eru nú veitt í sjöunda sinn. Alls bárust fimm tilnefningar í ár sem þóttu sýna þá miklu breidd sem er í menningarlífi á Suðurlandi.

Fyrri greinUppfært í appelsínugula viðvörun
Næsta greinTöluverð snjóflóðahætta Suðvestanlands