Harma upplausnarástand í heimavistarmálum

Sveitarstjórn Mýrdalshrepps harmar það upplausnarástand sem er í heimavistarmálum Fjölbrautaskóla Suðurlands og krefst þess að nemendum úr Vestur-Skaftafellssýslu verði sköpuð viðunandi aðstaða til náms í FSu.

Sveitarfélögin í sýslunni hafi staðið að uppbyggingu skólans til jafns við önnur sveitarfélög á Suðurlandi.

Málefni heimavistar FSu voru rædd á síðasta fundi sveitarstjórnar þar sem sveitarstjóri gerði grein fyrir fundi sem hann ásamt sveitarstjóra Skaftárhrepps áttu með Illuga Gunnarssyni menntamálaráðherra, Ólafi Sigurðssyni starfsmanni ráðuneytisins, Olgu Lísu Garðarsdóttur skólameistara FSU og Þórarni Ingólfssyni aðstoðarskólameistara um málið.
Fram kom á fundinum að af hálfu ráðherra sé ekki vilji til þess að ráðast í byggingu heimavistar við skólann og vandséð að hægt verði að útvega nemendum úr Vestur-Skaftafellssýslu húsnæði í vetur. Ræddur var sá möguleiki að taka upp fjarnám fyrir nemendur frá Vík og Klaustri og opnaði skólameistari á að sú leið yrði könnuð til hlítar ef vilji er til að skoða þá leið í heimabyggð.

Sveitarstjórn telur að tíminn til að koma á fjarnámi fyrir nemendur svæðisins nú í haust sé of skammur til að sá kostur sé raunhæfur, en lýsir sig reiðubúna til að skoða allar leiðir til framtíðar fyrir nemendur úr sýslunni.

Þá óskar sveitarstjórn eftir því að forvarsmenn skólans mæti strax til fundar með foreldrum og nemendum og kynni þeim það sem í boði er fyrir nemendur skólans í haust.

TENGDAR FRÉTTIR:
Ekki gert ráð fyrir heimavist við FSu