Harma niðurstöðu Hæstaréttar

Hæstiréttur Íslands komst að þeirri niðurstöðu í gær að íslenska ríkinu hafi verið heimilt að skerða fjárveitingu til Sólheima þó svo að Sólheimar hafi einir þjónustuveitenda í málefnum fatlaðra verið skertir á fjárlögum ársins 2009.

Guðmundur Ármann Pétursson, framkvæmdastjóri Sólheima, segir að Sólheimar harmi niðurstöðu Hæstaréttar.

“Það er verulegt áhyggjuefni að velferðarráðuneytið og aðrir opinberir aðilar geti mismunað þjónustuveitendum. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Sólheimum í vil og var sá dómur vel rökstuddur. Á tímum þar sem ítrekað er rætt um gagnsæi, réttlæti og jafnræði, þá vekur niðurstaða Hæstaréttar Íslands í senn furðu og vonbrigði,” segir Guðmundur Ármann.