Harma ákvörðun ríkistjórnarinnar

Bæjarstjórn Árborgar harmar ákvörðun um staðsetningu nýs fangelsis á Hólmsheiði án samráðs eins og ráðamenn höfðu lofað.

Ari Björn Thorarensen, D-lista, lagði fram bókun vegna þessa á bæjarstjórnarfundi í gær og var hún samþykkt samhljóða.

„Ríkisstjórnin hefur ákveðið að byggja upp gæsluvarðhalds- og öryggisfangelsi á Hólmsheiði þrátt fyrir aðra hagkvæma valkosti. Þetta er ákveðið þótt ekki liggi fyrir hvernig fjármögnun verður háttað eða mat á öðrum valkostum,“ segir í bókuninni. Þar er einnig minnt á fyrirheit um samráð um byggingu nýs fangelsis og telur bæjarstjórnin að ekki hafi verið skoðað til hlítar hverjir kostir þess eru að halda áfram uppbyggingu á Litla-Hrauni.

„Öllum er ljóst að auka þarf fangelsisrými og á Litla-Hrauni eru innviðir traustir auk þess sem sveitarfélagið hefur ítrekað boðist til að greiða götu verkefnisins með afslætti af gjöldum,“ segir m.a. í bókuninni.

Þá er ljóst að verulegur frumkostnaður er af því að byggja upp á Hólmsheiði og því alls óvíst að sú leið sé þjóðhagslega hagkvæmust.

Bæjarstjórn óskar eftir góðu samstarfi við stjórnvöld um þetta brýna mál og hvetur íbúa til að taka þátt í umræðu um framtíð Litla-Hrauns.
Ekki sé of seint að forgangsraða á nýjan leik enda hefur ekki verið gengið frá fjármögnun eða fjárveitingu vegna verkefnisins.

„Litla-Hraun er enn góður kostur og sveitarfélagið er hér eftir sem hingað til tilbúið að styðja við uppbyggingu þess með öllum tiltækum ráðum.“

Bæjarstjórn Árborgar mun standa að opnum fundi um málið fimmtudaginn 1. september og verður hann haldinn á Rauða Húsinu á Eyrarbakka kl. 20. Þingmönnum kjördæmisins og innanríkisráðherra hefur verið boðið og kom fram á bæjarstjórnarfundinum að ráðherra hafi þekkst boðið.

Fyrri greinJúdódeildin í Sandvíkurskóla
Næsta greinFékk 15 milljarða króna kröfu frá ríkinu