Harleymót í Þykkvabænum

Árlegt fjölskyldumót Harley Davidson mótorhjólaklúbbsins á Íslandi verður haldið í Oddsparti í Þykkvabæ um helgina.

Mótið er ávallt vel sótt af áhugamönnum um Harley Davidson mótorhjól en mótið er opið öllum, Á þriðja hundruð manns sóttu hátíðina í fyrra.

Í ár er áhersla lögð á skemmtilega leiki og keppnir fyrir krakka á öllum aldri, verðlaunapeningar verða veittir fyrir bestan árangur. Nýjar keppnir í ár eru Vitringurinn 2011 og Varahlutagúrú 2011.

Dagskráin hefst í kvöld með kraftmikilli súpu og lifandi tónlist og á morgun er viðamikil dagskrá fyrir krakka á öllum aldri, grillveisla og varðeldur svo eitthvað sé nefnt.

Mótinu verður slitið á sunnudag.