Harður árekstur á svörtum ís

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þrír voru fluttir á sjúkrahús eftir harðan árekstur tveggja bíla á Biskupstungnabraut, ofan við Þrastalund í Grímsnesi í nótt.

Neyðarlínan fékk tilkynningu um slysið klukkan 1:40 en þar höfðu jeppi og jepplingur lent framan á hvor öðrum. Tveir voru í öðrum bílnum og einn í hinum og þurftu liðsmenn Brunavarna Árnessýslu að beita klippum til þess að ná honum út úr bifreiðinni. Allir þrír voru fluttir á Landspítalann í Fossvogi.

Lögreglan á Suðurlandi rannsakar tildrög slyssins en glerhálka var á vettvangi og rigndi ís þannig að svokallaður svartur ís myndaðist á veginum.

Fyrri greinFyrsti Sunnlendingur ársins kom með hvelli
Næsta greinGuðmundur Árni íþróttakarl Aftureldingar