Harður árekstur á Selfossi

Frá vettvangi óhappsins á Selfossi í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Harður árekstur varð á mótum Reynivalla og Austurvegar á Selfossi á þriðja tímanum í dag.

Þar fipaðist ökumanni sem beygði af Reynivöllunum inn á Austurveg. Hann ók á nýja umferðareyju við gangbraut á götuhorninu og kastaðist bíllinn upp á gangstétt og á bíl sem stóð kyrrstæður í bílastæði við Tölvulistann.

Enginn slasaðist í óhappinu en bílarnir eru báðir talsvert skemmdir en mildi verður að teljast að engir gangandi vegfarendur hafi verið við gangbrautina. Mikil umferð var um Austurveginn á þessum tíma.

Lögreglan á Selfossi rannsakar tildrög slyssins.

Fyrri greinRjómabúið á Baugsstöðum opið um helgar
Næsta greinStokkseyri vann Suðurlandsslaginn