Harður árekstur á Eyrarbakkavegi

Frá vettvangi slyssins við Eyrarbakka í morgun. Ljósmynd/BÁ

Fólksbíll og sendibíll lentu í hörðum árekstri á mótum Eyrarbakkavegar og Álfstéttar við Eyrarbakka á tíunda tímanum í morgun.

Við áreksturinn valt sendibíllinn og hafnaði á toppnum. Mikill viðbúnaður var vegna slyssins og fóru lögregla og sjúkraflutningamenn á vettvang ásamt tækjabíl frá Brunavörnum Árnessýslu.

Ekki þurfti að beita klippibúnaði til þess að koma fólki út úr bílunum en loka þurfti veginum um tíma til þess að hreinsa brak og olíu af veginum.

Þrír voru fluttir með sjúkrabílum á bráðamóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi til skoðunar en samkvæmt upplýsingum sunnlenska.is var ekki talið að um alvarleg meiðsli væri að ræða.

Fyrri greinBækur í fimmtán tíma sóttkví
Næsta greinStóra ástin í lífinu