Þrír voru fluttir á slysadeild eftir harðan árekstur tveggja jepplinga á gatnamótum Þorlákshafnarvegar og Eyrarbakkavegar kl. 15:34 í dag.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi voru tveir í öðrum bílnum og einn í hinum og reyndust meiðsli fólksins minniháttar. Bílarnir eru hins vegar mikið skemmdir eftir áreksturinn og hafnaði annar þeirra á hvolfi.
Mikill viðbúnaður var vegna slyssins, lögreglu- og sjúkraflutningamenn fóru á staðinn ásamt tækjabíl frá Brunavörnum Árnessýslu.
Lögreglan á Suðurlandi rannsakar tildrög slyssins. Lögreglumenn stjórnuðu umferð á vettvangi og var veginum síðan lokað í skamma stund á meðan bílarnir voru fjarlægðir.
