Haraldur sjálfkjörinn formaður

Haraldur Þórarinsson í Laugardælum bauð sig einn fram til formennsku í Landssambandi hestamannafélaga og verður því sjálfkjörinn til tveggja ára þegar landsþing sambandsins fer fram á Selfossi 17.-18. október næstkomandi.

Fresti til að skila inn framboðum til stjórnar lauk um helgina.

Kjörnir verða sex aðalstjórnarmenn, auk formanns, og bárust alls tíu framboð til stjórnar. Einn Sunnlendingur er í framboði til aðalstjórnar, Ólafur Þórisson í Miðkoti, formaður Hestamannafélagsins Geysis.

Þrjú framboð bárust til varastjórnar og samkvæmt lögum LH er kjörnefnd heimilt að samþykkja framboð sem koma fram síðar ef ekki hefur komið fram nægur fjöldi frambjóðenda. Því auglýsir kjörnefnd enn eftir framboðum í varastjórn.

Fyrri greinÁrnesingafélagið í Reykjavík 80 ára
Næsta greinBreyta og stytta stíg