Haraldur hlaut heiðursmerki LH

Haraldur ásamt Lindu Björk Gunnlaugsdóttur, formanni LH. Ljósmynd/LH

Haraldur Þórarinsson í Laugardælum í Flóahreppi hlaut heiðursmerki Landssambands hestamanna á uppskeruhátíð hestafólks sem fram fór í Gamla bíó síðastliðinn laugardag.

Haraldur hefur með störfum sínum markað djúp spor í sögu Landssambands hestamannafélaga og lagt ómetanlegt framlag til framþróunar íslenskrar hestamennsku. Hann var kjörinn í varastjórn LH frá 1995 til 1998, aðalstjórn frá 1998 til 2006 og gegndi síðan formennsku frá 2006 til 2014. Auk starfa í stjórn LH gegndi hann formennsku í Hestamannafélaginu Sleipni á Selfossi á árunum 1991 til 1995 og var formaður Landsmóts ehf. frá 2008 til 2014.

Undir forystu Haralds voru mörg mikilvæg skref stigin í þróun og eflingu íslenskrar hestamennsku. Hann átti stóran þátt í sameiningu Landssambands hestamannafélaga og Hestaíþróttasambandsins undir merkjum ÍSÍ, stofnun Landsmóts ehf. og eflingu menntunar tengdri íslenska hestinum og festa hana í sessi innan íslenska menntakerfisins.

Í formannstíð Haraldar var mörgum nýjum og metnaðarfullum verkefnum hrundið af stað. Þar má nefna stofnun afrekshóps LH, þróun kerfisins Klár í keppni, skilgreiningu á gangtegundum íslenska hestsins og innleiðingu nýrra tölvukerfa í keppnishaldi.

Haraldur lagði jafnframt ríka áherslu á að efla starf landsliðsins í hestaíþróttum, stuðla að samvinnu og fagmennsku innan samtakanna og efla leiðtogahlutverk Íslands innan FEIF og á Norðurlöndunum.

Haraldur ásamt eiginkonu sinni, Þóreyju Axelsdóttur. Ljósmynd/LH
Fyrri greinTónlistarskóli Árnesinga fagnar 70 ára afmæli með stórtónleikum
Næsta greinKeldnakirkja 150 ára