Harður árekstur í Hveradölum

Harður árekstur varð á Suðurlandsvegi í Hveradalabrekku á fimmtudag í síðustu viku. Ökumaður, sem grunaður er um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna, ók aftan á kyrrstæða bifreið sem hafði bilað rétt áður.

Ökumaður þeirrar bifreiðar sat í bifreiðinni, að bíða eftir aðstoð, þegar áreksturinn varð. Hann var fluttur á heilsugæsluna á Selfossi til skoðunnar en var ekki talinn alvarlega slasaður. Bæði ökutækin voru óökufær eftir áreksturinn.

Á fimmtudagsmorgun var bifreið ekið aftan á aðra á Suðurlandsvegi á móts við Stórólfsvelli við Hvolsvöll. Éljagangur var og hálka þegar óhappið varð. Ökumaður bifreiðarinnar sem ekið var á hafði dregið úr hraða þar sem hann ætlaði að beygja inn á afleggjara að Stórólfsvöllum. Ökumaður hinnar bifreiðarinnar náði ekki að stöðva og lenti aftan á hinni bifreiðinni. Mikilvægt er að gæta að því að hafa nægilegt bil á milli ökutækja og ekki hvað síst við aðstæður eins og þarna voru. Þá hvílir sú kvöð á þeim sem ætla að draga úr ferð að gera það þannig að það valdi ekki óþægindum fyrir þá sem á eftir eru.

Fyrri greinDagbók lögreglu: Kastaðist af snjóþotu og rifbeinsbrotnaði
Næsta greinHellisheiði og Þrengslum lokað kl. 15