Harður árekstur á Sólheimasandi

Fjórir voru fluttir á slysadeild í Reykjavík með þyrlu Landhelgisgæslunnar eftir harðan árekstur tveggja fólksbifreiða á einbreiðri brú yfir Jökulsá á Sólheimasandi um kl. 19 í kvöld.

Viðbragðsaðilar áttu erfitt með að athafna sig á brúnni sökum þrengsla en tvennt festist í annarri bifreiðinni og þurfti að beita klippum til þess að ná þeim út úr bílnum.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var í æfingaflugi skammt frá slysstaðnum og bauð fram aðstoð sína. Þyrlan lenti í Skógum og voru fjórir fluttir með henni á slysadeild í Reykjavík. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Hvolsvelli er ekki vitað hversu alvarleg meiðsli fólksins eru en einhver beinbrot var um að ræða.

Mikið hefur snjóað í umdæmi lögreglunnar á Hvolsvelli og er mjög hált á vegum. Bifreið lenti utanvegar á Reynisfjalli í kvöld um kl. 18:30 en engin slys urðu á fólki.

Fyrri greinJafntefli í hnífjöfnum leik
Næsta greinOfankoma og blindhríð á fjallvegum