Harður árekstur á Skeiðavegi

Snemma á föstudagsmorgun varð harður árekstur á Skeiðavegi skammt ofan við Brautarholt. Þar rákust saman tveir bílar sem voru að mætast.

Þrennt var í öðrum bílnum en ökumaður einn í hinum. Enginn slasaðist en bæði ökutækin voru óökufær og flutt með kranbíl af staðnum.

Í hádeginu á föstudag valt bifreið á Laugarvatnsvegi á móts við Apavatn. Ökumaður var einn í bílnum og slapp án meiðsla. Bifreiðin skemmdist nokkuð og þurfti að fjarlægja hana með krana.

Í gærmorgun valt síðan pallbifreið á Suðurlandsvegi við brúnna á Djúpá við Kálfafell. Ökumaðurinn, sem var einn í bifreiðinni, missti stjórn á henni þegar hann lenti í snjóskafli við brúarendann. Hann slapp með minni háttar meiðsli og bifreiðin skemmdist lítið.

Fyrri greinÖkklabrotnaði í Skálpanesi
Næsta greinBjarni útnefndur íþróttamaður ársins