Harður árekstur á Skálholtsvegi

Um klukkan 15 í dag var mjög harður árekstur á Skálholtsvegi skammt austan við Biskupstungnabraut.

Ökumaður fólksbifreiðar á leið vestur Skálholtsveg er talinn hafa misst bifreið sína út í vegkantinn og brugðist við með því að kippa í stýrið inn á veginn. Við það mun hann hafa misst stjórn á bifreiðinni sem fór yfir á rangan vegarhelming og framan á bifreið sem í því kom á móti.

Ökumaður var einn í þeirri bifreið en í hinni var farþegi sem skarst talsvert. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á heilsusgæslustöðina á Selfossi þar sem gert var að sárum hans.

Báðar bifreiðarnar eru óökufærar eftir áreksturinn. Slökkviliðsmenn voru kallaðir á staðinn til að hreinsa upp olíur og önnur efni sem láku úr ökutækjunum á veginn.