Harður árekstur á Selfossi

Harður árekstur varð á Gagnheiði á Selfossi á tólfta tímanum í morgun þegar jeppa var ekið aftan á kyrrstæðan sendibíl.

Sendibíllinn var kyrrstæður út við vegkantinn þar sem ökumaðurinn var að tala í símann. Ökumaður jeppans tók ekki eftir sendibílnum og ók á vinstra afturhornið á honum.

Ökumenn voru báðir einir á ferð og kvartaði ökumaður sendibílsins undan eymslum í hálsi. Hann var fluttur til skoðunar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi og fékk að fara heim að henni lokinni.

Nokkrum mínútum áður varð talsvert eignatjón þegar litlum vörubíl var bakkað á fólksbíl á Tryggvagötu á Selfossi en enginn slasaðist í þeim árekstri.