Harður árekstur á Selfossi

Ökumaður fólksbíls slapp án teljandi meiðsla þegar hann missti stjórn á bíl sínum og ók utan í ljósastaur á Eyrarbakkavegi við bæjarmörkin á Selfossi síðdegis í dag.

Áreksturinn var nokkuð harður en bíllinn var á leið suður Eyrarbakkaveg þegar ökumaðurinn missti hann út í kant og á ljósastaur. Bíllinn tókst á loft og snerist í hálfhring á veginum en hélst á réttri akrein.

Ung kona sem ók bílnum var ein á ferð og var hún flutt á slysadeild til skoðunar en meiðsli hennar munu ekki vera alvarleg. Bifreiðin er hins vegar stórskemmd.

Tildrög slyssins eru ekki ljós á þessari stundu.

Fyrri greinFjölmargt í boði um verslunarmannahelgina
Næsta greinSjö ára tófubani á Flúðum