Harðorð ályktun frá kennurum í Árborg

Grunnskólakennarar í Árborg hittust á samstöðufundi í Vallaskóla á Selfossi í dag og báru saman bækur sínar. Þeir samþykktu ályktun á fundinum sem var skilað til bæjaryfirvalda á bæjarstjórnarfundi síðdegis.

Samkvæmt heimildum sunnlenska.is er frekari aðgerða að vænta á næstu dögum og munu þær væntanlega ná til allra kennara á Suðurlandi.

Ályktunin sem fundurinn samþykkti er eftirfarandi:

Við kennarar við grunnskólana í Árborg krefjumst þess að Sveitarfélagið Árborg semji strax við FG um kjör sem eru í samræmi við störf og menntun kennara. Kennarar hafa nú þegar fellt tvo samninga sem undir þá hafa verið bornir svo engum ætti að dyljast að þeir krefjast mun betri kjara en þar voru í boði.

Skólastarf sem standa á undir nafni verður ekki rekið nema með vel menntuðum og ánægðum kennurum. Nú er svo komið að menntuðum grunnskólakennurum fækkar ört vegna lítillar nýliðunar og kennarstéttin eldist. Við höfum áhyggjur af því að leiðbeinendum muni fjölga, sérstaklega á landsbyggðinni. Það er á ábyrgð sveitastjórnar að koma í veg fyrir að þessi óheillaþróun haldi áfram í okkar sveitarfélagi.

Á meðan að störf okkar eru ekki metin að verðleikum, neitum við að taka þátt í þróunarstörfum og verkefnum sem sveitarfélagið og eða skólastjórnendur leggja ofan á okkar störf, án þess að fá greitt fyrir. Munum við því aðeins sinna kennslu, undirbúningi og því sem viðkemur nemendum okkar þar til samningar nást, ef ekki kemur til verkfalls.

Fundurinn lýsir fullri ábyrgð á hendur sveitarstjórnar og skólayfirvalda í Árborg ef ekki tekst að halda úti eðlilegu skólahaldi í sveitarfélaginu á næstu dögum.