Hannes vann skyndihjálparafrek

Í tilefni af 112 deginum veitti Hveragerðisdeild Rauða krossins viðurkenningu fyrir skyndihjálparafrek á síðasta ári. Þá bjargaði Hannes Kristjánsson lífi konu sinnar Huldu Bergrósar Stefánsdóttur, þegar hún fór í hjartastopp á heimili þeirra hjóna í Hveragerði. Sonur þeirra Stefán, hringdi í Neyðarlínuna.

Hannes, sem var í slökkviliði Hveragerðis í mörg ár og lærði reglulega skyndihjálp, hnoðaði konu sína þar til sjúkrabíll kom frá Selfossi, en þá tóku sjúkraflutningamenn við. Það vita það allir sem veitt hafa hjartahnoð að það að hnoða manneskju í um 10 mínútur er þrekraun, og erfitt líkamlega, en ekki síður andlega þegar um þinn nánasta ástvin er að ræða.

Helgi Kristmundsson, formaður Hveragerðisdeildar, afhenti Hannesi viðurkenningarskjal og gjafabréf fyrir skyndihjálpartösku. Fjölskyldunni var boðið á skyndihjálparnámskeið sem haldið verður hjá Hveragerðisdeild fljótlega.