„Hann hefði kannski eignast hundrað þúsund fésbókarvini…“

„Það er ekki víst að nokkuð hefði orðið úr Jesú ef hann hefði einangast í tölvu,“ sagði sr. Baldur Kristjánsson í jóladagsprédikun sinni í Hjallakirkju í Ölfusi í dag.

Baldur gerði samskipti nútímamannsins meðal annars að umræðuefni í prédikun sinni.

„[Jesú] hefði kannski eignast hundrað þúsund fésbókarvini og selt guðsmynd sína á netinu en samfélagsgaurinn sem gekk um meðal fólksins í hópi lærisveina sinna hefði aldrei vaknað enda hefðu lærisveinarnir ekkert tekið eftir honum allir með nýjasta smellinn í Palestínu í iPodinum sínum þar sem þeir gerðu að netum sínum við Geneseretvatnið.

Allt væri öðruvísi ef tæknin hefði frelsað okkur á undan frelsaranum. Nei, þó að Jesú hugsaði sjálfstætt og væri ekki hópsál var hann samfêlagsmaður. Þess vegna er kristnin samfélag,“ sagði Baldur ennfremur í prédikuninni sem má lesa hér.