„Hann á stóran stað í hjarta okkar“

Á morgun, laugardag, verður haldin styrktaræfing í CrossFit Selfoss fyrir Jón Þorra Zar Jónsson sem greindist nýlega með æxli í höfði.

Jón Þorri, sem er fæddur 2007, er Íslandsmeistari unglinga í crossfit. Á milli jóla og nýárs fékk hann þær fregnir að hann væri með æxli í höfði og framundan er aðgerð þar sem reynt verður að fjarlægja æxlið. Eftir aðgerðina tekur svo við langt bataferli.

Samfélag með stórt hjarta
Styrktaræfingin hefst klukkan 10:00 og er öllum velkomið að taka þátt. Þátttökugjald er 2.000 krónur en einnig er tekið á móti frjálsum framlögum. Fólk er einnig velkomið að koma og taka þátt í stemningunni án þess að taka þátt í sjálfri æfingunni. Hægt verður að kaupa pizzasneiðar og Ísey verður með boozt og safa. Allur ágóði rennur óskiptur til Jóns Þorra og verkefnisins sem framundan er hjá honum.

„Við erum samfélag með stórt hjarta. Um leið fengum fregnir af veikindum Jóns Þorra þá var okkar fyrsta hugsun að vilja hjálpa á þann hátt sem við getum. Okkur þótti strax afskaplega vænt um að Jón Þorri og fjölskyldan hans skyldu leyfa okkur að halda þessa styrktaræfingu. Bæði hann og stór hluti fjölskyldunnar hans æfir hjá okkur flesta daga vikunnar og Jón sjálfur æfir og keppir undir merkjum stöðvarinnar og hefur þjálfað hjá okkur, svo hann á stóran stað í hjarta okkar allra hér,“ segir Sigrún Arna Brynjarsdóttir hjá CrossFit Selfoss.

Mikill áhugi fyrir æfingunni
Upphaflega var styrktaræfingin auglýst í lokuðum hópi meðal iðkenda CrossFit Selfoss en viðbrögðin voru slík að ákveðið var að bjóða öllum þeim sem vilja mæta að taka þátt í deginum.

„Viðtökurnar hafa vægast sagt verið góðar. Fólki vill koma og æfa og aðrir vilja koma og kaupa mat og styrkja og taka þátt í stemningunni. Fólk vill fá að styrkja strákinn okkar. Mér telst orðið til að um 80 manns ætli að mæta en það er alltaf fólk að bætast við. Aðrar crossfit stöðvar ætla að taka þátt og vera með í æfingunni, til dæmis Club Hamarsport í Hveragerði og Afrek í Reykjavík. Það eru fjölmargir sem ætla að taka þátt og vera með æfingu til styrktar Jóni á sama tíma og keyra æfinguna okkar.“

Aðspurð hvort þau séu með eitthvað ákveðið söfnunarmarkmið segir Sigrún svo ekki vera. „Aðalmálið er að geta sýnt stuðning í verki, notið laugardagsins með Jóni Þorra og hans fjölskyldu. Sá peningur sem safnast mun eins og áður hefur komið fram renna óskiptur til hans og vonumst við til að sú upphæð sem safnast komi sér að góðum notum í verkefnið sem framundan er.“

Munum styðja hann alla leið
Sigrún segir að þeir sem hafa ekki tök á að mæta í CrossFit Selfoss á morgun, til dæmis þeir sem búa erlendis, en vilja samt vera með í æfingunni geta samt sem áður verið með. „Við erum búin að birta æfinguna með öllum upplýsingum þar sem fólk getur bæði æft og lagt inn upphæð á Jón Þorra.“

„Jón Þorri er sterkur með eindæmum. Jákvæðnin skín úr augum hans á þessum erfiðum tímum og hans hugarfar er aðdáunarvert. Með hans styrk er allt hægt og munum við styðja hann alla leið,“ segir Sigrún að lokum.

Þeir sem vilja styrkja Jón Þorra og styðja hann í því verkefni sem framundan er geta lagt inn á reikning 0515-14-200407, kennitala 200407-3180.

Fyrri greinNauðsynlegt að ríki og sveitarfélög nái sátt um tekjustofnaskiptingu
Næsta greinNýr Kjalvegur myndi gjörbreyta umferð um landið