Handtekinn enn á ný eftir íkveikju

Útigangsmaður sem grunaður er um íkveikjur á Selfossi að undanförnu var handtekinn seint í gærkvöldu, grunaður um að hafa borið eld að ruslakassa úr plasti við KFC í gærkvöldi.

Búið var að loka staðnum og starfsfólk var farið úr húsinu. Mikinn reyk lagði frá kassanum þegar lögregla kom á staðinn og slökkti hún eldinn með handslökkvitæki.

Vitni gaf lögreglu ábendingu um manninn og var hann handtekinn skömmu síðar og vistaður í fangageymslu.

Á dögunum var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna íkveikjumála og ónæðis á Selfossi en Hæstiréttur felldi þann úrskurð úr gildi og því var manninum sleppt.