Handtekinn eftir falskt útkall á Ölfusá

Frá leitinni við Ölfusá í nótt. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Björgunarsveitir voru kallaðar út um klukkan rúmlega hálf eitt í nótt til leitar við Ölfusá þar sem tilkynning barst um að maður hefði dottið í ána af Ölfusárbrú.

Maðurinn fannst tæpum klukkutíma síðar í trjárjóðri við leikhúsið á Selfossi skammt ofan brúarinnar. Hann var handtekinn, grunaður um gabb og var látinn gista fangageymslur, að sögn Frímanns Birgis Baldurssonar, varðstjóra hjá lögreglunni á Suðurlandi

Björgunarfélag Árborgar, Hjálparsveit skáta í Hveragerði og Björgunarsveitin Björg á Eyrarbakka voru kallaðar út ásamt lögreglu, slökkviliðsmönnum frá Brunavörnum Árnesinga og sjúkraflutningamönnum af Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Aðgerðastjórn var virkjuð í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi.

Á milli 30 og 40 manns leituðu mannsins og fyrsti bátur var kominn á ána aðeins ellefu mínútum eftir að útkallið barst.

Frá leitinni við Ölfusá í nótt. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinHeimamenn með lægsta tilboðið í hringtorg í Vík
Næsta greinSundlaugargestateljari á heimasíðu Árborgar