Handtekinn eftir eftirför á Suðurlandsvegi

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lögreglan fékk tilkynningu í gærkvöldi um fólksbíl sem rásaði mikið á Suðurlandsvegi, vestan við Litlu Kaffistofu.

Bíllinn ók í austurátt og voru lögreglubílar sendir á móti honum frá Selfossi auk lögreglubíls frá umferðadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Ökumanninum var gefið merki um að nema staðar á Hellisheiði en hann sinnti stöðvunarmerkjum lögreglu ekki og ók áfram í átt að Selfossi. Lögreglumenn náðu að lokum að stöðva bifreið mannsins með því að aka utan í hana og snúa henni, í hringtorgi vestan við Selfoss.

Ökumaður var handtekinn og vistaður í fangageymslu á lögreglustöðinni á Selfossi og verður hann yfirheyrður í dag.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að mildi megi telja að engin slys hafi orðið, vegna vítaverðs aksturs ökumanns fólksbifreiðarinnar.