Hamarskot fékk styrk úr minningarsjóði Sissu

Meðferðarheimilið Hamarskot í Flóahreppi var meðal þeirra sem fengu í dag styrk úr Minningarsjóði Sigrúnar Mjallar Jóhannesdóttur. Sigurður Ingi Sigurðsson í Hamarskoti tók við styrknum.

Hamarskot – meðferðar og búsetuúrræði fyrir ungmenni í vímuefnavanda, fékk 200.000 króna styrk. Hann mun nýtast til uppbyggingar á smiðju fyrir unglingana þar til að auka starfshæfni þeirra og þekkingu og þannig auka möguleika þeirra til að takast á við lífið eftir meðferð.

Sex verkefni fengu styrk í dag, samtals uppá rúma eina og hálfa milljón króna. Auk Hamarskots voru það Kristján Kristjánsson tónlistarkennari, Sunna Mjöll Estherardóttir meðferðaraðili, Davíð Bergmann unglingaráðgjafi, Laugaland meðferðarheimili fyrir 12-18 ára unglingsstúlkur 12-18 ára og eftirmeðferð Stuðla.
Minningarsjóður Sigrúnar Mjallar var stofnaður í minningu Sigrúnar Mjallar Jóhannesdóttur sem lést þann 3. júní 2010 af völdum fíkniefna. Tilgangur sjóðsins er að styrkja skapandi verkefni ungmenna á aldrinum 12-18 ára sem eru í áfengis- og/eða vímuefnameðferð á meðferðarheimilum á Íslandi. Sjóðurinn úthlutar styrkjum einu sinni á ári, á afmælisdegi Sigrúnar Mjallar þann 22. desember.

Stjórn minningarsjóðsins vill koma sérstökum þökkum á framfæri til Fiskbúðar Hólmgeirs sem keypti treyju Arons Pálmarssonar landsliðsmanns í handbolta, en Aron er verndari minningarsjóðsins og gaf treyjuna sem boðin var upp og þakkir stjórnin einnig fyrir það. Stjórnin vill líka koma sérstökum þökkum til þriggja fjölskyldna á höfuðborgarsvæðinu sem styrktu sjóðinn samtals um 1,3 milljónir króna.

Minningarsjóður Sigrúnar Mjallar er í vörslu Íslandsbanka á Kirkjusandi. Kennitala sjóðsins er: 550113-1120. Reikningsnúmer: 596-26-2.

Fyrri greinÞrjú efstu ekki í framboði
Næsta grein„Þetta kom mér frekar mikið á óvart“