Hamarshöllin fauk í morgun

Ljósmynd/Friðrik Sigurbjörnsson

Hamarshöllin, loftíþróttahúsið í Hveragerði, sprakk í veðurofsanum á sjöunda tímanum í morgun. Gat hafði komið á höllina í óveðrinu og voru starfsmenn Hveragerðisbæjar mættir á staðinn til að kanna aðstæður þegar húsið sprakk.

Enginn var inni í húsinu þegar það fór og starfsmennirnir sem voru mættir á svæðið slösuðust ekki. Þakdúkurinn liggur nú yfir þeim helmingi hússins þar sem gervigrasvöllurinn er, en þakið fauk af þeim hluta hússins sem geymir íþróttagólfið og fimleikaaðstöðuna.

Friðrik Sigurbjörnsson, forseti bæjarstjórnar, segir í samtali við RÚV að tjónið hlaupi á hátt í hundrað milljónum króna.

„Það er alveg augljóst að það verður ekki reynt að bjarga neinu fyrr en um hádegi þegar það fer að lægja,“ segir Friðrik. „Það eru fimleikamunir, boltar og fleira sem hafa fokið á víð og dreif og upp í dal hjá okkur.“

Hamarshöllin var vígð árið 2012 en í húsinu er bæði gervigrasvöllur og íþróttagólf og hefur húsið nýst flestum deildum Íþróttafélagsins Hamars til æfinga. Höllin er 5.120 fermetrar og var yfirbyggingin úr tvöföldum dúk sem var borinn uppi með loftþrýstingi á milli ytra og innra lags.

Ljósmynd/Friðrik Sigurbjörnsson
Ljósmynd/Friðrik Sigurbjörnsson
Ljósmynd/Friðrik Sigurbjörnsson
Ljósmynd/Friðrik Sigurbjörnsson
Ljósmynd/Friðrik Sigurbjörnsson
Nýreist Hamarshöllin í Hveragerði.
Inni í Hamarshöllinni.
Fyrri greinRafmagnslaust víða á Suðurlandi
Næsta greinStórtjón í Jarðaberjalandi