Hamarshöllin endurreist í fyrri mynd

Hamarshöllin fauk í óveðri í febrúar. Ljósmynd/Friðrik Sigurbjörnsson

Bæjarstjórn Hveragerðis samþykkti á síðasta fundi sínum í síðustu viku að endurnýja dúk Hamarshallarinnar en höllin sprakk í óveðri í febrúar síðastliðnum. Meirihluti D-listans lagði tillöguna fram en minnihlutinn sat hjá og vildi skoða aðrar leiðir við endurbyggingu hússins.

Pantaður verður nýr dúkur frá slóvenska fyrirtækinu Duol, en dúkurinn er 20% sterkari en sá sem áður var á húsinu. Tilboð Duol í dúkinn, hurðir, festingar og lýsingu hljóðar upp á 86,7 milljónir króna. Stefnt er að því að höllin verði risin aftur næsta haust en áætlaður heildarkostnaður við endurbygginguna er allt að 370 milljónir króna og þá eigi eftir að taka tillit til tryggingabóta vegna gamla hússins.

Meirihluti D-listans segir að með þessari ákvörðun gefist tækifæri til að endurheimta aðstöðuna í Hamarshöllinni með hagkvæmum hætti. Jafnframt því sé stefnt að viðbyggingu við íþróttahúsið í Hveragerði og uppbyggingu gervigrasvallar. Slík uppbygging gæti ekki orðið að veruleika á næstunni ef farið væri í kostnaðarsamari framkvæmdir við Hamarshöllina.

Hamarshöllin.

Hveragerðisbær fékk Verkís til að veita ráðgjöf og framkvæma valkostagreiningu vegna endurbyggingarinnar. Samkvæmt greiningu Verkís kostar stálgrindarhús í sömu stærð 1.200 til 1.600 milljónir króna og viðhaldskostnaður þess konar húss er 7 milljónum króna hærri á ársgrundvelli, en orkukostnaður er meiri í loftbornu húsi eins og Hamarshöllinni, sem nemur 3,1 milljónum króna á ári.

„Við viljum ekki stíga skref aftur á bak. Með því að endurreisa Hamarshöllina með úrbótum sem við vitum að eru nauðsynlegar […] getum við gert enn betur. Nú þegar við erum reynslunni ríkari munum við leggja áherslu á að dúkurinn verði styrktur sérstaklega og aukastyrkingar verði settar á álagspunkta. Auk þessa er nauðsynlegt að setja upp skjól hvort sem það yrðu girðingar eða eitthvað annað sem brjóta myndi norðanáttina,“ segir í greinargerð með tillögu D-listans.

Minnihlutinn gagnrýndi skýrslu Verkís og málsmeðferð meirihlutans
Minnihlutinn í Okkar Hveragerði og Frjáls með Framsókn gerði alvarlegar athugasemdir við skýrslu Verkís og málsmeðferð meirihlutans, meðal annars að hvergi komi fram hvað varð þess valdandi að Hamarshöllin féll og ekkert áhættumat sé í skýrslu Verkís. „Það er mat minnihlutans að það sé óábyrgt að taka ákvörðun um hundruð milljóna króna fjárfestingu þegar slík niðurstaða liggi ekki fyrir.“

Minnihlutinn vildi fresta ákvörðuninni um framtíð Hamarshallarinnar þar sem skýrsla Verkís væri ófullgerð og gerði fjölmargar athugasemdir við hana, meðal annars að aðeins hafi verið kannaðir í henni tveir kostir af þeim fimm sem bæjarstjórn ákvað að leggja til grundvallar

„Það mat bæjarfulltrúa Okkar Hveragerði og Frjálsra með Framsókn að ekki standi steinn yfir steini í þessu máli. Gögn bárust seint og í andstöðu við lög, ekki hefur verið fjallað sérstaklega um kröfur Íþróttafélagsins Hamars og skýrsla Verkís er því miður ekki nægilega vel unnin og kostir sem eru hagkvæmir fyrir uppbyggingu nýrrar Hamarshallar hafa ekki verið skoðaðir,“ segja fulltrúar minnihlutans og lögðu til að ákvörðuninni yrði frestað til næsta bæjarstjórnarfundar.

Fyrir fundinn leituðu fulltrúar minnihlutans upplýsinga um aðra valkosti fengu verðhugmynd að einangruðu stálgrindarhúsi á grunni Hamarshallarinnar, sem kosta myndi um 260 milljónir króna. Um er að ræða hús sem reynsla er af í Hafnarfirði og gæti það verið tilbúið í lok nóvember.

Meirihlutinn lét bóka, áður en tillaga hans var samþykkt, að lausnin sem minnihlutinn legði fram stæðist enga skoðun og það að bæjarfulltrúarnir taki ekki mark á rauntölum í skýrslu frá einni stærstu verkfræðistofu landsins væri í raun ótrúlegt.

Í Hamarshöllinni.
Fyrri greinÞrjú tilfelli fuglaflensu staðfest á Suðurlandi
Næsta greinAllt að vinna