Hamarshöllinni frestað og ráðist í byggingu gervigrasvallar

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Bæjarráð Hveragerðisbæjar samþykkti á fundi sínum í morgun að fresta uppbyggingu Hamarshallarinnar og fara strax af stað með byggingu gervigrasvallar í fullri stærð og leigja húsnæði í Vorsabæ fyrir neðan þjóðveg fyrir inniíþróttir.

Í aðsendri grein frá meirihluta bæjarstjórnar segir að ástæða þessa sé gífurleg þörf á mikilli fjárfestingu í skolphreinsistöð bæjarins en Hveragerðisbær hafi ekki sinnt uppbyggingu hennar í samræmi við íbúafjölgun.

Ákveðið hefur verið að koma upp upphituðum gervigrasvelli í fullri stærð á íþróttasvæðinu inni í Dal en þar er framtíðaríþróttasvæði bæjarins skipulagt. Hönnun og framkvæmdir á vellinum fara strax af stað og standa vonir til þess að hann geti verið kominn upp á næsta ári en nákvæmari tímasetningar um framkvæmdir munu verða gefnar út á næstu vikum.

Til þess að mæta mikilli þörf fyrir aðstöðu fyrir inniíþróttir hefur jafnframt verið ákveðið að taka á leigu húsnæði í Vorsabæ fyrir neðan veg. Lagt er upp með að húsnæðið sé um 700 fermetrar að stærð og verður lagt íþróttagólfi og verði leigt í 3-5 ár. Eftir þann tíma er vonast til þess að varanleg aðstaða til inniíþrótta verði komin upp.

Í greininni frá bæjarstjórn kemur fram að áætlunum um uppbyggingu Hamarshallarinnar sé frestað en ekki hætt við þær. Tilboðum sem bárust í alútboði var öllum hafnað nú í apríl og ákveðið hefur verið halda ekki samkeppnisviðræðum við tilboðsgjafa áfram. Með því að fresta málinu og fara í þá uppbyggingu sem að framan er nefnd gefist meira svigrúm til að undirbúa málið vel og skoða alla mögulega kosti í ljósi fjárhagsstöðu bæjarins.

Fyrri greinUppbygging íþróttaaðstöðu í Hveragerði
Næsta greinDramatík hjá Árborg – Uppsveitamenn fallnir