Hámarkshraði við einbreiðar brýr lækkaður

Stóru-Laxárbrú á Skeiða- og Hrunamannavegi. sunnlenska.is/Helga R. Einarsdóttir

Vegagerðin hefur ákveðið að lækka hámarkshraða í 50 km/klst við allar einbreiðar brýr á þjóðvegum landsins þar sem umferð er meiri en 300 bílar á dag að jafnaði.

Um er að ræða um 75 einbreiðar brýr og þar af er um helmingur þeirra á Þjóðvegi 1.

Þá verður viðvörunarskiltum breytt og einnig bætt við undirmerki á ensku á viðvörunarskiltum. Kostnaður við merkingar er áætlaður um 70-80 milljónir króna.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að þar á bæ hafi einnig verið ákveðið að yfirfara hámarkshraða á þjóðvegum í dreifbýli og breyta honum til lækkunar reynist þess þörf eða fjölga merkingum um leiðbeinandi hraða. Þá verður gerð úttekt á vegriðum á öllum brúm á stofn- og tengivegum. Lagfæringum verður forgangsraðað eftir ástandi brúnna og aðstæðum á hverjum stað eftir því sem svigrúm er í fjárheimildum.

Fyrri greinHlynur kominn heim
Næsta greinSkoðar möguleikann á hópmálsókn gegn Vegagerðinni