Bæjarráð Hveragerðis samþykkti á fundi sínum í gær viðbótarfjármagn til Íþróttafélagsins Hamars til að sporna við brottfalli úr íþróttastarfi.
Hamar sendi sveitarfélaginu bréf þar sem gera á breytingar á fyrirkomulagi æfinga fyrir börn í 1. og 2. bekk þar sem hugmyndin er sú að allar deildir Hamars fái úthlutað einni æfingu á viku fyrir þennan aldurshóp og iðkendur geti valið hversu margar íþróttir þeir stunda, en aðeins eitt gjald verði innheimt fyrir allar íþróttirnar, óháð því hve margar iðkandinn velur. Með þessu myndi sparast dýrmætur tími í eina íþróttahúsi bæjarins og börnin fá tækifæri til að kynnast fleiri íþróttagreinum.
Mikið brottfall hefur verið úr íþróttastarfi hjá Hamri, bæði vegna kórónuveirufaraldursins en einnig vegna hvarfs Hamarshallarinnar. Hamar óskaði eftir 1,5 milljónum króna til verkefnisins og samþykkti bæjarráð erindið.